Franski bolabíturinn hefur átt sérstakan stað í hjörtum okkar í mörg ár. Með einstakan persónuleika, gleði og tryggð hefur hann verið ómissandi hluti af lífi okkar. Árið 2016 fengum við fyrsta bolabítinn okkar, og ástríðan sem kviknaði þá hefur í dag þróast í Frenchie Iceland.
Þetta byrjaði sem ást á einum frönskum bolabít en þróaðist í köllun.
Þegar Thor kom til okkar árið 2016 töfraði hann alla með sínum einstaka persónuleika og gáfum. Hann var elskaður af öllum sem kynntust honum, en stundum fannst honum einmanalegt þar sem hann var of oft einn heima.
Árið 2020 sáum við gullfallegan Blue Tan franskan bolabít á Spáni. Við vildum finna félaga fyrir Thor, sem beið heima, og hófum leit að frönskum bolabít með Blue Tan lit. Fljótlega áttum við okkur á því að þessi litur var afar sjaldgæfur og ekki í boði á Íslandi. Á sama tíma urðum við meðvituð um hversu margir hundar voru ekki ræktaðir með heilbrigði að leiðarljósi. Það er sárt að sjá marga hunda takast á við alvarleg heilsufarsvandamál, óréttlæti gagnvart bæði dýrunum sjálfum og fjölskyldunum sem elska þá.
Við vorum greinilega stálheppin með Thor, sem reyndist vera einstakur á allan hátt. Þráin um að eignast "Thor Junior" kviknaði áður en hann myndi yfirgefa okkur. Þrátt fyrir að hann væri orðinn sex ára, fórum við með hann á HRFÍ sýningu, þar sem hann hlaut dómaraeinkunnina "Excellent", sem er framúrskarandi fyrir hans aldur. Dómarinn tók jafnframt fram að hann hefði viljað sjá Thor á sýningu þegar hann var yngri.
Okkur fannst því tímabært að taka skrefið inn í ræktunarheiminn á Íslandi og flytja inn heilbrigða tík sem gæti eignast heilbrigðan "Thor Junior". Eftir mikla leit fundum við loks fallega og heilbrigða Fawn tík, og daginn eftir sáum við einnig Blue Tan tík. Við tókum ákvörðun um að flytja þær báðar inn og finna Exotic rakka á Íslandi til að parast með henni.
Þetta var langt og strangt ferli. Tíkurnar þurftu að gangast undir margvísleg heilbrigðispróf og ferðast langt frá sitt hvoru landinu. Við kynntum okkur allar reglur HRFÍ, staðla heilbrigðisprófana og viðurkenndar aðferðir til að tryggja að hvolpar fæðist sem heilbrigðastir. Hjá okkur gangast allir hundar undir nákvæma heilsufarsskoðun, og aðeins er ræktað undan heilbrigðum foreldrum. Við leggjum einnig áherslu á jafnvægi og gott skapferli hjá hundunum okkar.
Ástríða okkar breyttist í draum, og draumurinn varð að veruleika. Frenchie Iceland er í dag lítið en metnaðarfullt ræktunarheimili þar sem hver einasti hvolpur nýtur kærleika og umhyggju áður en hann fer á nýtt heimili.
Við leggjum mikla áherslu á að fylgja hverjum hvolpi á nýtt heimili, veita ráðgjöf og stuðning, og tryggja að hver fjölskylda finni sinn fullkomna félaga. Það sem skiptir okkur mestu máli er að hvolpurinn verði ekki bara gæludýr, heldur ómissandi fjölskyldumeðlimur til lífstíðar.
Við erum stolt af því að bjóða upp á heilbrigða ræktun með bæði klassískum og sérstökum litum. Klassíska ræktunin okkar heitir "Thorshammer Frenchie Iceland", sem er nefnd eftir Thor, upphafinu að þessari ræktun. Facebook síðan er hér.
Hún hefur þó ekki verið mikið virk.
Hin ræktunin heitir "Exotic Frenchie Iceland", þar sem Saga ber Exotic gen og mun hennar lína alltaf þróast í þeim anda.
Þær sameinast undir Frenchie Iceland og allir hundar eru sýndir þar.
Skoðið endilega Facebook-síðuna okkar hjá Exotic Frenchie Iceland og Instagram síðuna hjá Frenchie Iceland hér að neðan. Þær síður hafa verið meira virkar. Þó myndir af öllum hundum blandist stundum saman inná Exotic síðuna og Thorshammer síðuna að þá reynum við eftir fremsta megni að aðskilja efni, en stundum er einfaldlega erfitt að ná bara ákveðnum hundum á mynd þegar skemmtileg augnablik eiga sér stað.
Ýttu á logo-in hér að neðan til að sjá meira.